Sumarfrí 2025
Sumarfríið 2025 var blautt, með örfáum góðum dögum inn á milli.
Núna er ég mættur í vinnuna á ný. Get ekki sagt að ég hafi hlakkað til að byrja aftur eftir fríið, en samt gott að komast aðeins af heimilisfanginu.
Heimilisfangið er viðvarandi áminning um ókláruð verkefni. Listi hér, listi þar, ómálað horn, vantar að kítta þarna, setja meiri einangrun og svo framvegis og svo framvegis.
Þegar maður hefur eignast hús, og ég er svona frekar seinn miðað við minn árgang, þá eru verkefnalistinn endalaus og mun aldrei klárast. Mjög margt verður gert mánuðinn fyrir sölu, ef við seljum einvhern tímann.
Okkur hefur liðið vel hérna síðustu 4 ár. Húsið hefur tekið miklum stakkaskiptum þökk sé hugmyndavinnu Magneu. Það er ótrúlega gaman að vera partur af þessari ferð.
Síðan við fluttum inn höfum við breytt garðinum úr grasblett í blómahaf. Þar sem áður var bara risablettur og sláttuvél eru nú komin hábeð med grænmeti, körfuboltavöllur, risa trampólín, plómutré, kirsuberjatré, rifsberjarunnar, sólber, allskonar plöntur. Yfirbyggð stétt (brákaði rifbein við að klambra því saman). Við byggðum 12 fermetra skúr líka.
Næst er trépallur út frá eldhúsinu og hjólaskýli.
Inni höfum við svo tekið hér um bil öll herbergi í gegn.
Á efri hæðinni strípuðum við herbergið hans Krumma og einangruðum veggina upp á nýtt. Kunnum varla að halda á hamri þegar við byrjuðum, en tókst bara nokkuð vel. Svo hefur herbergið hans Fróða og Jöru verið tekið í gegn. Okkar herbergi fékk umgang og svo skrifstofan, sem ég nota oft í viku þar sem ég vinn heima 60-70 % af vinnunni minni.
Eldhúsið er líka gjörbreytt, nýir frontar á innréttinguna, nýjar flísar á vegg, málning og strípað loft. Ég er örugglega að gleyma einhverju, en þegar maður lítur tilbaka þá er þetta nú nokkuð góður listi.
Í sumar hefur líka verið frekar rólegt. Við byrjuðum á gróðurhúsi með gömlum gluggum og munum loka því fyrir veturinn og ræktum tómata og gúrkur næsta sumar ásamt því að geta notað húsið sem skammakrók. Kannski Jara geti tálgað einvherja trékarla eða amk tínt tómata.
Eins og áður segir þá er sumarið blautt.
Akkúrat núna rignir. Í seinustu viku rigndi helling og lítur út fyrir að júlí verði blautasti mánuður frá upphafi mælinga.
Anyway, langaði bara að krota smá og hafði í raun engar pælingar með hvað ég ætlaði að skrifa, nema jú, hvað ég er búinn að vera að horfa á síðustu vikur.
Þetta hérna að ofan kom bara óvart með.
Sko, já hvað er ég búinn að vera að horfa á. Við Magnea erum búinn að taka allt fáanlegt efni með "Afdeling Q" eða "Deild Q" eftir Jussi Adler. Allar dönsku myndirnar voru kláraðar og svo Netflix þættirnir þar sem Carl Mörck er orðinn breti og vinnur í Skotlandi. Allt saman mjög gott, en verð að segja að fyrstu 4 myndirnar standa upp úr. Sérstaklega sú fyrsta. Endilega kynnið ykkur þetta. Mjög gott Skandínavískt film noir glæpadót.
Svo hef ég verið að horfa á mjög mikið af heimildarmyndum um tónlist. Á HBO er heimildamynd um Billy Joel, í tveimur hlutum. Frábært efni. Svo tók ég Liza Minelli, Steve Van Zandt (var að klára hana í gær. Stórkostlegur karakter). Núna er ég að horfa á seríu um James Brown.
Ég hef alltaf sótt í tónlistar heimildamyndir. Alveg drekk það allt í mig. Mæli til dæmis eindregið með Muscle Shoals heimlidamyndinni.
Jæja ætla að hætta núna og fara að snúa mér að vinnuni.
Klukkan er 8 að morgni 30. júlí, allir enn í fríi nema ég og það er loksins smá pása á rigningunni.
sjáumst.
A
Ummæli